Samstarfsverkefni STS

Tónlistarskólarnir. Menntun, menning, miðlun. „Tónlistarskólarnir“ er einkennisorð skólanna og undir því vinna þeir saman að ýmsum verkefnum s.s. kynnigarátakinu á Degi tónlistarskólanna.

Dagur tónlistarskólanna. Á Degi tónlistarskólanna 7. febrúar, efna tónlistarskólarnir til árlegrar hátíðar um allt land. Meðal viðburða má nefna opið hús, tónleika, hljóðfærakynningar og ýmiskonar námskeið auk þess sem nemendur heimsækja vinnustaði, heilbrigðisstofnanir og aðra skóla og flytja tónlist.

Á haustþingi STS 2019 var samþykkt að Dagur tónlistarskólanna skyldi vera 7. febrúar, í tilefni af fæðingardegi Gylfa Þ. Gíslasonar, sem var menntamálaráðherra frá 1956 – 1971. Úr greinargerð með tillögunni: Gylfi Þ. Gíslason var mikill áhrifavaldur hvað varðar tónlistarkennslu og beitti sér fyrir umbótum á því sviði. Með því að Dagur tónlistarskólanna sé á fæðingardegi Gylfa Þ. Gíslasonar, heiðrum við minningu Gylfa og sýnum verkum hans í þágu tónlistarskólanna verðskuldaða virðingu.

Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskólanna, er samvinnuverkefni Félags tónlistarskólakennara (FT), Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og Samtaka tónlistarskólastjóra (STS). Verkefnið felst í því að hver skóli velur atriði á sameiginlega landshlutatónleika og er úrval af þeim valið til flutnings á einum tónleikum sem haldnir eru undir lok marsmánaðar ár hvert þar sem nemendum eru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi flutning.
http://ki.is/notan/

Haustþing STS. Samtök tónlistarskólastjóra standa árlega fyrir haustþingi, en það sækja tónlistarskólastjórar af öllu landinu. Auk aðalfundar sækja stjórnendur námskeið, fá fyrirlesara og ræða málefni tónlistarskólanna. Fundirnir dreifast um landið milli ára og af og til eru farnar námsferðir erlendis.

Fræðslufundir STS eru haldnir á Höfuðborgarsvæðinu í janúar ár hvert. Á fræðsludegi sækja stjórnendur námskeið, fá fyrirlesara og ræða þau málefni tónlistarskólanna sem eru efst á baugi hverju sinni.