Kennarar og stjórnendur í tónlistarskólum hafa nú verið án kjarasamnings í sex mánuði. Lítið hefur þokast í viðræðum þrátt fyrir að verkfallsaðgerðir hafi staðið yfir undanfarnar fimm vikur.
Samtök tónlistarskólastjóra skora á Samband íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkið að beita sér fyrir því að staðið verði við gerða samninga svo tryggt verði að laun félagsfólks Kennarasambands Íslands standist samanburð við laun sambærilegra sérfræðinga á almennum markaði.
Árið 2016 var gert samkomulag milli opinberra launagreiðenda og bandalaga stéttarfélaga þar sem kveðið er á um að jafna eigi laun á milli markaða á sex til tíu árum. Nú, átta árum síðar, hefur þessi jöfnun launa ekki náðst.
Kennarar eiga tilkall til sambærilegra launa og sambærilegir háskólamenntaðir sérfræðingar á almennum markaði. Ómálefnalegur launamunur milli markaða hefur alvarlegar afleiðingar á íslenskt skólastarf og víða vantar fagmenntaða kennara. Mikilvægt er að sveitastjórnir og ríkið, sem bera ábyrgð á hinu íslenska menntakerfi, sýni metnað sinn fyrir fræðslustarfi á Íslandi með því að leggja áherslu á að fjárfesta í kennurum.
Fjárfestum í kennurum. Fjárfestum í framtíðinni.
Stjórn Samtaka tónlistarskólastjóra,
Anna Rún Atladóttir
Aron Örn Óskarsson
Jarl Sigurgeirsson
Jóhann Morávek
Linda María Nielsen
Sóley Þrastardóttir